Kínversk menning og viðskiptahættir
Kína á sér um það bil 5000 ára sögu og eru Kínverjar stolt þjóð sem ber virðingu fyrir hefðum. Í stuttu máli má lýsa viðskiptaumhverfi og menningu Kínverja þannig:
-
Þeir eiga erfitt með að þola óvissu og margræðni, þeir eru ágreiningsfælnir og hafa mikla þörf fyrir samhljóm, sem getur haft áhrif á frumkvæði. Þeir og þá helst yngsta kynslóðin leggur mikla áherslu á árangur og velgengni og þeir eru vinnusamir og sparsamir, en krefjast ekki skjóts gróða, heldur leggja áherslu á langtímaárangur og traust samstarf. Fjölskyldan og vinir eru þeim mikilvægir og þeir bera virðingu fyrir aldri og yfirboðurum. Heiður og orðspor er þeim mikilvæg og þeir meiga ekki missa andlitið. Kínverskt samfélag hefur búið við mikinn hagvöxt síðustu áratugi sem hefur bætt lífsgæði, samtímis hefur samkeppni aukist mikið og það hefur komið niður á hefðbundnum gildum, og hætt er á að slík samkeppni kalli á spillingu. Hefðbundin gildi eru þó enn til staðar sem blandast hinum nýju.
-
Vinna þarf markvisst að því að byggja upp langtímasambönd við rétta aðila og þá sem næstir eru í valdastiganum þar sem Kínverjar vantreysta oft ókunnugum.
-
Mikilvægt að „réttur andi“ og gagnkvæmur skilningur ríki milli manna í samningum, vegna tilhneigingu Kínverja til þess að endursemja.
-
Varðandi samningagerð, er gott að hafa í huga að spila ekki út öllum spilunum í byrjun, til þess að eiga möguleika á að geta gefið eitthvað eftir á lokasprettinum, sem styrkir heiður kínversku samningamannanna.
-
Mikilvægt er að gefa sér góðan tíma þegar kemur að viðskiptum í Kína og fara varlega í meðhöndlun ágreinings, m.a. vegna mikillar áherslu á heiður og orðspor, það er ekki auðveldlega aftur tekið að niðurlægja Kínverja opinberlega. Gott er að geta leyst ágreining án þess að þurfa fara með hann fyrir dómstóla.
-
Mikilvægt er að hafa gott kínverskt starfsfólk sem getur hjálpað til við skilning og þekkja þolmörk viðsemjenda. Gott er að ráða Kínverja með reynslu af Vesturlöndum og vestrænum háttum.
-
Vegna skorts starfsmanna á frumkvæði er nauðsynlegt að gefa starfsfólki mjög nákvæmar leiðbeiningar um hvað skuli gera.
-
Hvað varðar framleiðslu í Kína er stöðugt gæðaeftirlit mikilvægt. Einnig verður að gæta þess að keyra ekki verð það mikið niður að það geti ekki annað en komið niður á gæðum.
-
Oft má reikna með flóknum samningaviðræðum. Kynningu og innleiðingu, sjálfum samningaviðræðunum og eftirsamningum, þar sem samið er um smærri atriði sem koma upp í framkvæmdinni. Þeim er illa við nákvæmlega orðaða samninga, enda byggja viðskiptasambönd þeirra á trausti. Því er undirskrift undir samninga aðeins vísbending um það að þeir vilji byggja upp langtímasamband, en þeir geta brotið samninga ef traust brestur.
-
Rétt er að ítreka að það sem mestu máli skiptir er að kynna sér vel kínverska menningu og samfélag og nýta sér alla þá alla hjálp sem í boði er.
-
Ómögulegt er að alhæfa um nokkuð svo stórt og fjölbreytt sem Kína, vegna þeirra andstæðna sem alltaf má finna þar. Mikilvægt er þó að taka tillit til kínverskra hefða án þess að hvika frá eigin gildum. Einnig skyldu menn forðast að dæma aðra menningu út frá sinni eigin menningu. Kína er enn land tækifæranna en best er að nálgast viðskipti þar með varfærinni bjartsýni.

